Stefna um bestu framkvæmd
1 Almenn atriði
Tilgangur
1.1 Með stefnu um bestu framkvæmd viðskipta leitast T Plús hf. (hér eftir „T Plús“ eða „félagið“) við að ná fram bestu mögulegu niðurstöðu fyrir viðskiptavini sína við framkvæmd viðskiptafyrirmæla.
Grundvöllur
1.2 Stefna þessi er sett með vísan til laga nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga (hér eftir „lögin“ eða „lmf.“) og reglna sem þau veita lagagildi eða eru settar á grundvelli þeirra, einkum 5. þáttar reglugerðar (ESB) 2017/565.
Gildissvið
1.3 Stefnan gildir um allt starfsfólk T Plús þegar félagið framkvæmir fyrirmæli viðskiptavina vegna viðskipta með fjármálagerninga.
1.4 Stefnan gildir gagnvart almennum fjárfestum og fagfjárfestum. Stefnan gildir aðeins um viðurkennda gagnaðila hafi þeir sérstaklega óskað eftir því, sbr. 1. og 2. mgr. 51. gr. lmf.
1.5 Í stefnu þessari skal hugtakið viðskiptastaður þýða skipulegur markaður, markaðstorg fjármálagerninga, skipulegt markaðstorg eða innmiðlari, viðskiptavaki eða annar aðili sem tryggir seljanleika, sbr. 64. gr. reglugerðar (ESB) nr. 2017/565. Önnur hugtök skulu hafa sömu þýðingu og fram kemur í lögunum.
2 Besta framkvæmd fyrirmæla
2.1 Við framkvæmd viðskiptafyrirmæla metur félagið vægi ólíkra þátta sem geta haft áhrif á verðmyndun eða aðra þætti viðskiptanna, sem er háðir framkvæmd þeirra af hálfu félagsins, með það að markmiði að tryggja bestu mögulegu niðurstöðu viðskiptavina. Þeir þættir sem koma til skoðunar eru:
a) verð,
b) kostnaður,
c) hraði,
d) líkur á því að af viðskiptum og uppgjöri verði,
e) umfang viðskipta,
f) eðli viðskipta, og
g) aðrir þættir sem geta komið til skoðunar við framkvæmd viðskipta.
2.2 T Plús metur hlutfallslegt vægi ofangreindra þátta út frá eftirfarandi viðmiðum:
a) eiginleikum viðskiptavinarins, þ.m.t. hvort viðskiptavinurinn er flokkaður sem almennur fjárfestir eða fagfjárfestir,
b) eiginleikum fyrirmæla viðskiptavinarins, þ.m.t. hvort þau fela í sér fjármögnunarviðskipti með verðbréf,
c) eiginleikum þeirra fjármálagerninga sem eru efni fyrirmælanna,
d) eiginleikum þeirra viðskiptastaða sem unnt er að senda fyrirmælin til.
2.3 Þegar félagið framkvæmir fyrirmæli fyrir hönd almenns fjárfestis skal ákvarða bestu mögulegu niðurstöðu út frá heildargreiðslu, þ.e. verðs fjármálagernings auk kostnaðar við framkvæmd. Innifalinn skal allur kostnaður viðskiptavinar sem er beinlínis tengdur framkvæmd fyrirmæla, þ.m.t. þóknanir.
2.4 Þegar félagið sjálft framkvæmir ekki fyrirmæli heldur sendir fyrirmæli til annarra aðila skal starfsfólk T Plús huga sérstaklega að því að uppfylla kröfu 1. mgr. 33. gr. lmf. um að þjóna hagsmunum viðskiptavina sinna sem best og tryggja að farið sé eftir þessari stefnu.
3 Um framkvæmd fyrirmæla
Almennt um framkvæmd fyrirmæla
3.1 T Plús framkvæmir viðskiptafyrirmæli:
a) Á viðskiptastað. Í þeim tilvikum sem félagið hefur ekki beinan aðgang að viðskiptastað eru viðskiptafyrirmæli framkvæmd í gegnum aðra verðbréfamiðlara.
eða
b) Utan viðskiptastaðar. Í þeim tilfellum eru viðskiptafyrirmæli að jafnaði framkvæmd með eftirfarandi hætti:
- Fyrirmæli tveggja eða fleiri viðskiptavina félagsins eru látin mætast.
- Félagið leitar fyrirmæla til að mæta fyrirmælum viðskiptavinar og framkvæmir viðskipti.
- Fyrirmæli eru framkvæmd hjá öðrum verðbréfamiðlurum eða markaðsaðilum.
Sjá sérákvæði um framkvæmd fyrirmæla á viðskiptastað í greinum 3.8-3.14 og um framkvæmd fyrirmæla utan viðskiptastaðar í greinum 3.15-3.17.
3.2 Þegar T Plús sinnir fyrirmælum viðskiptavina skal starfsfólk félagsins tryggja að:
a) fyrirmæli sem framkvæmd eru fyrir hönd viðskiptavina séu skráð og þeim úthlutað án tafar og af nákvæmni;
b) fyrirmæli viðskiptavina, sem eru sambærileg, verði framkvæmd í þeirri röð sem þau berast og án tafar nema það sé ógerlegt vegna eðlis fyrirmælanna eða ríkjandi markaðsaðstæðna eða vegna þess að hagsmunir viðskiptavinarins krefjast þess; og
c) að almennum fjárfesti verði tilkynnt um öll veruleg vandkvæði sem varða tilhlýðilega framkvæmd fyrirmæla um leið og þess vandkvæði koma í ljós.
3.3 Mæli viðskiptavinur sérstaklega fyrir um tiltekna framkvæmd fylgir T Plús fyrirmælum hans.
3.4 Þegar félagið hefur umsjón með eða kemur í kring uppgjöri eftir framkvæmd fyrirmæla skal það gera allar eðlilegar ráðstafanir til að tryggja að fjármálagerningur viðskiptavinar eða fjármunir viðskiptavinar sem veitt er viðtaka við uppgjör eftir framkvæmd þeirra fyrirmæla séu án tafar og með viðeigandi hætti lagðir inn á reikning viðkomandi viðskiptavinar.
3.5 Starfsfólk T Plús skal ekki misnota upplýsingar sem tengjast óafgreiddum fyrirmælum viðskiptavinar og félagið gerir allar eðlilegar ráðstafanir til að hindra að starfsmenn og aðrir þeir er starfa á vegum félagsins misnoti slíkar upplýsingar.
3.6 Til að ná fram bestu niðurstöðu hverju sinni kann viðskiptabeiðnum viðskiptavina að vera safnað saman með öðrum fyrirmælum sem berast félaginu. Fyrirmæli skulu ekki sameinuð nema ólíklegt sé að viðkomandi samsöfnun muni í heild reynast óhagstæð einhverjum viðskiptavini. Skýra skal fyrir sérhverjum viðskiptavini, sem á fyrirmæli sem setja á í safnið, að áhrif samsafnsins geti reynst óhagstæð að því er varðar tiltekin fyrirmæli.
Framkvæmd viðskiptafyrirmæla á viðskiptastað
3.7 Lista yfir helstu viðskiptastaði sem T Plús notar við framkvæmd viðskiptafyrirmæla, þegar ekki er óskað eftir sérstakri framkvæmd, er að finna í viðauka I.
3.8 Ef hægt er að framkvæma fyrirmæli á fleiri en einum viðskiptastað, skal félagið meta og bera saman þá niðurstöðu sem hægt væri að ná fyrir viðskiptavin á sérhverjum viðskiptastað sem tilgreindur er í viðauka I við þessa stefnu. Í matinu skal tekið tillit til þóknana félagsins sjálfs og þess kostnaðar sem hlýst af framkvæmd fyrirmæla á hverjum viðskiptastað fyrir sig.
3.9 T Plús mun hverju sinni leitast við að velja þá tegund viðskiptastaða sem eru líklegastir til að tryggja bestu niðurstöðu fyrir viðskiptavini í samræmi við stefnu þessa. Þegar fleiri en einn viðskiptastaður kemur til greina mun T Plús meta og bera saman þann árangur sem líklegt er að unnt verði að ná fyrir viðskiptavini.
3.10 Bjóði félagið viðskiptavini að velja viðskiptastað skal veita sanngjarnar, skýrar og ekki villandi upplýsingar til að koma í veg fyrir að viðskiptavinir velji einn viðskiptastað umfram annan eingöngu á grundvelli þeirrar verðstefnu sem félagið beitir.
3.11 Þegar viðskiptavinur gefur skilyrt fyrirmæli vegna hlutabréfa sem eru í viðskiptum á viðskiptavettvangi sem, vegna markaðsaðstæðna, er ekki hægt að framkvæma jafn skjótt og þau berast, skal félagið leitast við að fyrirmælin verði framkvæmd eins fljótt og mögulegt er með því að birta þau samstundis þannig að þau séu aðgengileg öðrum markaðsaðilum. Félaginu er þó heimilt að taka ákvörðun um að birta ekki skilyrt fyrirmæli viðskiptavinar opinberlega hafi hann samþykkt það.
3.12 T Plús tekur ekki við endurgjaldi, afslætti eða ófjárhagslegum ávinningi fyrir að beina fyrirmælum viðskiptavinar til tiltekins viðskiptavettvangs eða viðskiptastaðar, sem ekki væri andstætt reglum T Plús um hagsmunaárekstra eða lögum.
3.13 T Plús skiptir ekki umboðslaunum sínum eða innheimtir þau á þann hátt að það leiði til ósanngjarnar mismununar milli viðskiptastaða.
Framkvæmd viðskiptafyrirmæla utan viðskiptastaðar
3.14 Félagið getur ákvarðað að nauðsynlegt sé, til að tryggja bestu mögulegu niðurstöðu við framkvæmd viðskiptafyrirmæla, að framkvæma fyrirmælin utan viðskiptastaða.
3.15 Lögum samkvæmt er T Plús skylt að afla samþykkis viðskiptavina fyrir fram ef að viðskiptafyrirmæli eru framkvæmd utan viðskiptavettvangs. Með því að samþykkja stefnu þessa staðfestir viðskiptavinur að hann hafi verið upplýstur um framangreint og að T Plús sé heimilt að framkvæma viðskipti utan viðskiptavettvangs, í undantekningartilvikum, telji félagið það nauðsynlegt til að viðskipti nái fram að ganga.
3.16 Þegar fyrirmæli eru framkvæmd eða ákvörðun er tekin um að eiga viðskipti með afurðir utan viðskiptavettvangs, þ.m.t. sérsniðnar afurðir, skal félagið kanna sanngirni verðsins sem lagt er til við viðskiptavininn með því að afla markaðsgagna sem notuð eru til að meta verð slíkra afurða og, þegar unnt er, gera samanburð við svipaðar eða sambærilegar afurðir.
4 Sérstök fyrirmæli viðskiptavina
4.1 Mæli viðskiptavinur fyrir um sérstaka framkvæmd eða ákveðna framkvæmd viðskipta en mælt er fyrir um í þessari stefnu skal félagið leitast við að framkvæma fyrirmæli hans í samræmi við það. Félagið telst þar með uppfylla skuldbindingu sína um að leita allra leiða til að tryggja bestu mögulegu niðurstöðu fyrir viðskiptavini, að því marki sem hann framkvæmir fyrirmæli eða tiltekinn þátt þeirra samkvæmt sérstökum fyrirmælum viðskiptavinar.
4.2 Viðskiptavinur skal vera meðvitaður um að sérstök fyrirmæli kunni að koma í veg fyrir bestu mögulegu niðurstöðu. Með því að samþykkja stefnu þessa staðfestir viðskiptavinur að honum sé kunnugt um möguleg neikvæð áhrif sérstakra fyrirmæla.
5 Upplýsingagjöf
5.1 Starfsfólk T Plús skal veita viðskiptavinum viðeigandi upplýsingar um efni stefnunnar og afla fyrir fram samþykkis þeirra í upphafi viðskiptasambands, tímanlega áður en fyrirmæli eru send til framkvæmdar.
5.2 Upplýsingar sem veittar eru viðskiptavinum T Plús um þessa stefnu skal sérsníða að þeim flokki fjármálagernings og þeirri tegund þjónustu sem veitt er. Gæta skal þess að viðkomandi upplýsingar fullnægi ákvæðum 3. mgr. 66. gr. reglugerðar (ESB) 2017/565.
5.3 Þegar T Plús framkvæmir fyrirmæli fyrir almenna fjárfesta skal veita viðkomandi viðskiptavini samantekt á stefnunni, með áherslu á heildarkostnað sem af fyrirmælum hlýst. Í samantektinni skal einnig vera tengill í nýjustu gögn um gæði framkvæmdar fyrir hvern viðskiptastað sem T Plús telur upp í þessari stefnu í samræmi við gr. 5.4.
5.4 Árleg birtir T Plús opinberlega, fyrir hvern flokk fjármálagerninga, yfirlit yfir fimm helstu viðskiptastaði með tillit til umfangs viðskipta síðastliðið ár og upplýsingar um gæði framkvæmdar.
5.5 Séu lögð á mismunandi gjöld eftir viðskiptastöðum skal félagið útskýra þennan mismun nógu ítarlega til að gera viðskiptavini kleift að skilja kosti og ókosti þess að velja einn viðskiptastað.
5.6 Leggi viðskiptavinur fram réttmætar og hæfilegar beiðnir til T Plús um upplýsingar um stefnur og fyrirkomulag félagsins, um hvernig endurskoðun þessi fer fram eða um aðila sem fyrirmæli eru send til eða lögð fram hjá skal T Plús svara með skýrum hætti innan hæfilegs frests.
5.7 Í kjölfar viðskipta skal upplýsa viðskiptavin um hvar viðskiptin voru framkvæmd.
5.8 Þegar félagið hefur framkvæmt fyrirmæli fyrir hönd viðskiptavinar, skal það tafarlaust veita viðskiptavininum helst upplýsingar um viðskiptin og senda honum tilkynningu til staðfestingar þeirra í samræmi við kröfur 59. gr. reglugerðar (ESB) 2017/565.
6 Eftirlit og endurskoðun
6.1 T Plús mun hafa reglulegt eftirlit með skilvirkni þessarar stefnu, og að sérstaklega gæðum framkvæmdar hjá þeim aðilum sem tilgreindir eru í viðauka I. Regluvörður skal hafa eftirlit með skilvirkni og framkvæmd stefnunnar, greina annmarka og fylgja úrbótum eftir.
6.2 T Plús skal ávallt geta sýnt fram á að fyrirmæli hafi verið framkvæmd fyrir hönd félagsins í samræmi við stefnuna.
6.3 Stefnan og fyrirkomulag hennar skal endurskoðuð árlega, þ.m.t. viðauki I. Auk þess skal endurskoðun fara fram ef veruleg breyting verður sem hefur áhrif á getu félagsins til að ná áframhaldandi besta hugsanlega árangri fyrir viðskiptavini sína. Í þessu samhengi merkir veruleg breyting mikilvægur atburður sem gæti haft áhrif á viðmið um bestu framkvæmd.
6.4 Nýjasta útfærsla stefnunnar á hverjum tíma skal vera aðgengileg á vefsíðu félagsins, www.tplus.is.
7 Breytingar og gildistaka
7.1 Breytingar á þessari stefnu verða aðeins gerðar skriflega og taka gildi þegar stjórn félagsins hefur samþykkt þær.
7.2 Breytingar á viðauka skulu gerðar skriflega og samþykktar af framkvæmdastjóra. Tilkynna skal viðskiptavinum T Plús um verulegar breytingar.
Samþykkt af stjórn T Plús hf., 22.2.2024
VIÐAUKI I:
Tafla 1
[Sjá töflu 1 í II. viðauka við reglugerð (ESB) 2017/565]
Tafla 2
[Sjá töflu 2 í II. viðauka við reglugerð (ESB) 2017/565]
Tafla 3
[Sjá töflu 3 í II. viðauka við reglugerð (ESB) 2017/565]
VIÐAUKI II:
Samantekt á greiningu og niðurstöðum
[Sjá 3. mgr. 3. gr. reglugerðar (ESB) 2017/565]